Ný samtök stofnfjáreigenda í Sparisjóði Húnaþings og Stranda voru stofnuð á mánudag. Um 60 manns sóttu stofnfund.

Um 140 stofnfjáreigendur fengu lán hjá Sparisjóði Keflavíkur og Landsbankanum fyrir stofnfjáraukningu í sjóðnum. Stór hluti íbúa í Húnaþingi er í miklum fjárhagsvanda vegna lánanna sem í mörgum tilfellum voru gengisbundin og á persónulegri ábyrgð lántakenda.

Dæmi eru um að fjölskyldur skuldi vel á annað hundrað milljónir. Jón Óskar Pétursson, framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Norðvesturlandi, hefur greint frá því í fjölmiðlum að lánin hafa valdið fjárhagslegum hörmungum víða.

Stofnféð í sjóðnum var aukið þúsundfalt, úr 1,9 milljónum í 1,9 milljarða.

Reimar Marteinsson, kaupfélagsstjóri á Hvammstanga, er formaður samtakanna.