Seppo Sairanen, stofnandi og fyrrverandi stjórnarformaður FIM Group sem Glitnir yfirtók síðastliðið vor hefur í hyggju að stofna nýjan fjárfestingabanka í Helsinki. Nýi bankinn hefur hlotið nafnið Sofia Capital.

Þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans.

Kim Gorschelnik, yfirmaður hlutabréfagreininga hjá Glitni í Finnlandi hefur gengið til liðs við Sairanen.

Að sögn finnskra fjölmiðla áætla þeir að sækja um starfsleyfi í júní og gera ráð fyrir að ráða um 60-80 manns til starfa. Um 280 manns störfuðu hjá Glitni í Finnlandi í lok seinasta árs. Sölutakmörkun aflétt í lok mars

Glitnir greiddi um 340 milljónir evra fyrir FIM við kaupin á síðasta ári, sem var um 30% yfir markaðsvirði fyrirtækisins að sögn Greiningadeildar Landsbankans.

Hlutur Sairanen var 31,57% og nam verðmæti hlutarins því um 107 milljónir evra. Greitt var að hálfu með hlutum í Glitni og eftir kaupin var hlutur Sairanen í Glitni um 1,3% hlutafjár bankans.

Samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar var Sairanen bundinn af sölutakmörkunum á hlut sínum í eitt ár frá 1. apríl 2007. Takmörkunum var þó aflétt af tólftu hluta við hver mánaðamót þar til öllum hömlum var aflétt í lok mars á þessu ári.  Í ársbyrjun hafði Sairanen selt um þriðjung af eign sinni í Glitni og féll af lista yfir 20 stærstu hluthafa bankans.   Þegar kaupin á FIM fóru fram hafði Sairanen nýlega hlotið 26 mánaða dóm fyrir meint peningaþvætti. Sairanen áfrýjaði og hnekkti áfrýjunardómstóll dóminum í desember á síðasta ári samkvæmt frétt Helsingin Sanomat. Þá felldi dómurinn einnig niður sekt sem FIM hafði verið gert að greiða að upphæð 100.000 EUR.   Auk Gorschelnik hafa tveir greinendur Glitnis í Finnlandi nýlega látið af störfum, Pasi Väsänen og Jussi Hyöty. Báðir voru þekktir fyrir greiningar á fjarskiptaiðnaðinum, segir Greiningadeild Landsbankans í Vegvísi.