*

föstudagur, 6. ágúst 2021
Innlent 30. janúar 2017 12:40

Stofnuðu fyrsta framtakssjóðinn

Forstjóri Virðingar segir að sjóðurinn Auður I sé langt kominn með að losa allar sínar eignir.

Alexander Freyr Einarsso
Hannes Frímann Hrólfsson, forstjóri Virðingar.
Haraldur Guðjónsson

Hannes Frímann Hrólfsson varð forstjóri Virðingar í janúar 2014 eftir að fyrirtækið sameinaðist Auði Capital.

„Rekstur framtakssjóða í þeirri mynd sem við þekkjum þá í dag er eitthvað sem þekktist kannski ekki mikið hér á landi fyrir 2008," segir Hannes Frímann. „Við vorum fyrsti aðilinn, þ.e.a.s. Auður Capital á þeim tíma, sem stofnaði slíkan sjóð fyrir hrunárið 2008, en sá sjóður nefnist Auður I. Í dag er sá sjóður langt kominn með að losa allar sínar eignir en algengur líftími framtakssjóða er 8-10 ár.

Ölgerðin var ein af stærstu eignum þess sjóðs sem við höfum núna gengið frá sölu á, að fengnu samþykki Samkeppniseftirlitsins. Þá eigum við eftir þrjár eignir í þeim sjóði, en síðan höfum við stofnað Eddu framtakssjóð, sem er meðal annars stór eigandi í Íslandshótelum, Securitas og Dominos. Þarna er um að ræða stærstu hótelkeðju landsins, stærsta fyrirtækið á sviði öryggisgæslu og stærsta aðilann í smásölu á skyndibitamarkaði.

Við höfum í rauninni fjárfest í mjög mörgum íslenskum rekstrarfélögum, sem hefur hjálpað til við að styrkja minni og meðalstór félög sem ekki eru skráð í kauphöll. Í mörgum tilfellum hefur þetta verið leið þessara fyrirtækja til að sækja sér fjármagn til að vaxa og styrkjast enn frekar eins og við sjáum t.d. með Domino‘s, sem við komum með fjármagn inn í til að styðja útrás til Noregs og Svíþjóðar og ári síðar vorum við búnir að selja tæplega helming okkar fjárfestingar með mjög góðum hagnaði.

Hjá Íslandshótelum komum við með fjármagn til að hjálpa til við hraðari uppbyggingu hótela, þannig við höfum verið að sjá mörg klassísk íslensk rekstrarfélög ná sér í nýtt fjármagn í formi eiginfjár, en ekki eingöngu lánsfjár eins og algengara var hér á árum áður. Þannig má segja að fjármagnsuppbygging margra íslenskra rekstrarfélaga er mun heilbrigðari nú en áður. Þar er sérstaklega rétt að minnast á lífeyrissjóðina sem hafa fjárfest í innlendum framtakssjóðum og verður ekki betur séð en þær fjárfestingar hafi almennt komið vel út á síðustu árum fyrir sjóðina auk þess sem það er ákveðin áhættudreifing fólgin í því fyrir sjóðina sem höfðu áður fyrst og fremst fjárfest í innlendum skráðum hlutabréfum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.