Kjósarhreppur stofnaði formlega fyrirtækið Kjósarveitur ehf. þann 8. janúar síðastliðinn. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Borað hefur verið eftir heitu vatni víða í Kjósinni síðastliðin ár og nú síðast í landi Möðruvalla. Þar eru komnar að lokum tvær vel heppnaðar heitavatnsholur sem áætlað er að virkja fyrir stóran hluta sveitarinnar,“ segir í tilkynningunni.

Í kjölfar þess að formlegt nýtingarleyfi á borholunum hefur verið útgefið af Orkustofnun var fyrirtækið stofnað til þess að halda utan um verkefnið.

Sigríður Klara Árnadóttir frá Klörustöðum er framkvæmdastjóri félagsins. Í stjórninni sitja svo þeir Pétur Guðjónsson frá Bæ, Karl Magnús Kristjánsson frá Eystri-Fossá, Sigurður Ásgeirsson frá Hrosshóli og Guðmundur Davíðsson frá Miðdal.