Að öllum líkindum mun vera gengið frá kaupum fasteignafélagsins Stoða á danska fasteignafélaginu Atlas Ejendomme í dag, að því kemur fram í frétt á mbl.is. Félagið er með þeim stærri á dönskum fasteignamarkaði og er talið að verðmæti þess sé nálægt 30 milljörðum danskra króna.

Viðskiptablaðið sagði frá því fyrir jól að Baugur og Stoðir væru að ganga frá 28 milljarða kaupum á Atlas Ejendomme. Í frétt mbl.is er Baugur ekki nefndur, en félagið er stærsti hluthafinn í Stoðum. Ekki hefur fengist staðfest hvort Baugur tekur þátt í kaupunum.

Baugur á einnig 29% í Keops, danskt fasteignafélag, sem hefur farið mikinn að undanförnu, en þeir greindu frá því fyrir tveimur dögum að hafa keypt 84 fasteignir í Svíþjóð fyrir 23,7 milljarða íslenskra króna.