Í ársreikningi Stoða fyrir árið 2009 er bókfærð tekjufærsla vegna eftirgefinna skulda í tengslum við nauðasamninga, og nemur bókfærður hagnaður á árinu 2009 því 212 milljörðum króna. Starfsemi Stoða var með reglubundnum hætti á seinni hluta ársins og nam hagnaður þess tímabils 1.209 milljónum króna.

Bókfært verðmæti eigna Stoða þann 31. desember 2009 var 33,5 milljarðar króna og skuldir félagsins, sem allar eru til langs tíma, námu 10 milljörðum króna. Eigið fé Stoða í árslok 2009 nam því 23,5 milljörðum króna og eiginfjárhlutfall félagsins var 70%. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Fjárhagslegri endurskipulagningu Stoða lauk um mitt síðasta ár, samhliða nauðasamningum við kröfuhafa sem í kjölfarið eignuðust allt hlutafé í Stoðum.

Helstu eignir Stoða eru 99,9% hlutur í Tryggingamiðstöðinni (TM) og 40% hlutur í evrópska drykkjarvöruframleiðandanum Refresco, en í gær var tilkynnt um kaup fjárfestingafélagsins 3i á 20% hlut í Refresco fyrir 84 milljónir evra. Meðal annarra eigna Stoða má nefna eignarhluti í Royal Unibrew, Nordicom og Inspired Gaming.

Hluthafar Stoða eru nú 109 talsins. Þrír hluthafar, Glitnir, NBI og Arion banki, fara með yfir 10% af atkvæðamagni hlutabréfa.