Stoðir – áður FL Group – töpuðu 11,6 milljörðum króna eftir skatta á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Tap fyrir skatta nemur 10,2 milljörðum.

Í tilkynningu frá félaginu segir að tapið sé að mestu tilkomið vegna fjármagnskostnaðar og lækkunar á markaðsverðmæti eignarhlutar félagsins í Glitni banka.

„Á síðastliðnum mánuðum hafa Stoðir haldið áfram að endurskipuleggja eignasafn sitt og selt fjölmargar eignir. Hlutabréf félagsins voru skráð úr kauphöll í júní síðastliðnum, nafni félagsins var breytt í Stoðir í byrjun júlí og tilkynnt var um kaup félagsins á kjölfestuhlut í Baugi Group,“ segir í tilkynningu.

Í lok júní sl. var eigið fé Stoða 87 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall fjárfestingastarfsemi 29%. Í tilkynningu segir að eftir kaup á eignarhluti í Baugi Group verði eiginfjárhlutfallið í fjárfestingastarfsemi 35%. Eignir félagsins námu 352 milljörðum króna í lok annars ársfjórðungs.

Í tilkynningu segir Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða, að afkoma félagsins á öðrum fjórðungi beri augljós merki þess umróts sem einkennt hefur fjármálamarkaði frá miðju árinu 2007. Þá segir hann einnig að lækkun á gengi hlutabréfa og hár fjármagnskostnaður skýri tap fjórðungsins. Einnig kemur fram að með kaupum Stoða á Baugi Group aukist eigið fé félagsins um 25 milljarða króna og að Baugur bætist í hóp kjarnafjárfestinga félagsins. Þar voru fyrir Glitnir, TM og Landic Property.