Árleg rýrnun vegna þjófnaðar í verslunum nemur um 6 milljörðum króna samkvæmt nýrri samantekt Samaka verslunar og þjónustu á málinu.

Fjallað er um úttektina í Morgunblaðinu í dag en þar segir Gunnar Ingi Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa, að ráðstafanir séu sífellt hertar vegna þessa en engu að síður komi það fyrir að fólk „hreinsi úr heilu hillunum“ ein s og hann orðar það.

Að sögn Gunnars eru öll þjófnaðarmál kærð til lögreglu en í fyrrnefndri samantekt kemur fram að verslunareigendum hafi reynst erfitt að fá kröfur teknar upp af ákæruvaldinu. Mál sem tengist búðarþjófnuðum séu oft felld niður og kröfum sé oft mótmælt af ákærðu.

Þá segir Gunnar að áður en einstefnuhliðin voru sett upp hafi það gerst að fólk hafi ekið fullum búðarkörfum út úr versluninni, án þess að greiða fyrir. Búðarþjófar grípi til ýmissa bragða. „Einu sinni kom maður inn í eina verslunina, merktur einum af birgjum okkar í bak og fyrir og sagðist þurfa að bæta á lager verslunarinnar. Enginn kannaðist við kauða og í ljós kom að hann hafði komist yfir fatnað, sem var merktur tiltekinni heildverslun, í þeim tilgangi að fá aðgang að lagernum,“ segir Gunnar. Hann segir aukagæslu vera í verslunum Hagkaupa fyrir og um jólin, ekki síst vegna öryggis viðskiptavina. „Það hafa komið upp þannig dæmi í jólaösinni að fólk sem er ekki heilsuhraust þarf á aðstoð að halda,“ segir hann. Hann segir ýmislegt hafa komið fram á undanförnum árum sem torveldi búðarþjófum iðju sína, þar á meðal segulmerkingar á varningi. „En þetta er endalaus barátta og við getum ekki slakað á í þessum efnum,“ segir Gunnar.