*

föstudagur, 7. ágúst 2020
Innlent 14. janúar 2020 19:01

Stór markaður fyrir skammdræga rafbíla

Formaður Rafbílasambandsins segir auðvelt fyrir flesta að nota skammdræginn rafbíl sem aukabíl heimilisins.

Júlíus Þór Halldórsson
Jóhann G. Ólafsson formaður Rafbílasambandsins og Hulda Mjöll Þorleifsdóttir eiginkona hans eru mikið áhugafólk um rafbíla.
Haraldur Guðjónsson

Nokkrir samhangandi þættir hafa staðið rafbílavæðingunni hvað mest fyrir þrifum. Framan af var stærsta vandamálið drægni. Brautryðjendur á borð við Nissan Leaf og síðar Volkswagen e-Golf náðu ekki 200 kílómetrum við kjöraðstæður, og í vetrarkuldanum getur drægnin fallið um allt að helming. Ástæðan fyrir þessu var fyrst og fremst sú að rafhlöður voru einfaldlega of dýrar í framleiðslu til að hægt væri að bjóða rafbíl með drægni hefðbundinna bíla á sambærilegu verði.

Rafbílamarkaðurinn hefur því einkennst af nokkurskonar drægnikapphlaupi. Samhliða hratt fallandi verði rafhlaða – sem hafa lækkað í verði um 85% síðastliðinn áratug – hafa framleiðendur keppst við að bjóða upp á bíla með sífellt meiri drægni á þolanlegu verði, og þannig haldið sig í svipuðum verðflokki en stækkað rafhlöðurnar og aukið þar með drægnina eftir því sem rafhlöðuverð hefur farið fallandi.

Í dag kemst nýr Leaf frá um 250 kílómetrum og upp í 360 á hleðslu og e-Golfinn um 300, auk þess sem fjöldi annarra bíla með enn meiri drægni er í boði.

Drægnikapphlaupið á enda
Nú er svo komið að hægt er að fá bíla með upp undir 500 km drægni á verði meðalfólksbíls, og má því segja að drægnikapphlaupið sé búið. Næsta skref er því að lægra rafhlöðuverð skili sér í rafbílum með drægni nær því sem fyrstu bílarnir höfðu, en á mun lægra verði.

Jóhann G. Ólafsson, formaður Rafbílasambandsins, telur að markaðurinn fyrir slíka skammdræga rafbíla muni vaxa mikið á næstunni. „Það er stór markaður fyrir skammdræga bíla, fólk bara veit það ekki ennþá. Það eru orðið mjög mörg heimili á Íslandi með tvo bíla, og fyrir flesta er auðvelt að vera með undir 200 kílómetra dræginn bíl sem aukabíl. Raunar hefur reynslan verið sú að á heimilum með einn bensínbíl og einn skammdrægan rafbíl verður bensínbíllinn gjarnan aukabíllinn, sem er bara notaður í langferðir, á meðan rafbíllinn er notaður eins og kostur er í allt annað.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.