Hæstiréttur staðfesti rétt í þessu dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í Baugsmálinu svo kallaða, máli ákæruvaldsins gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, stjórnarformanni Baugs, Tryggva Jónssyni, fyrrum forstjóra Baugs og Jóni Gerald Sullenberger, athafnamanns í Bandaríkjunum.

Jón Ásgeir og Jón Gerald hlutu þriggja mánaða skilorðsbundna dóma fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur vegna útgáfu á tilhæfulausum kreditreikningi en Tryggvi hlaut tólf mánaða skilorðsbundinn dóm. „Með þessu er stóra Baugsmálinu lokið,” sagði Jakob R. Möller, hrl., lögmaður Tryggva í samtali við fjölmiðla eftir að dómur var upp kveðinn.

Hann kvaðst þeirrar skoðunar að dómurinn yfir umbjóðenda sínum, Tryggva, væri „stór og bitur biti.”

Allir ánægðir með málalok

Nýjar ákærur í 19 liðum voru gefnar út í Baugsmálinu fyrir tveimur árum. Einum lið var vísað frá en Hæstiréttur fjallaði um 18 ákæruliði. Málflutningur fór fram um miðjan liðinn mánuð.

Sigurður Tómas Magnússon settur ríkissaksóknari í Baugsmálinu, kveðst gera ráð fyrir að aðilar beggja vegna borðs væri ánægðir með að málinu væri lokið. Miðað við dóm Héraðsdóms kæmi þessi niðurstaða ekki á óvart.

„Þessum þætti Baugsmálsins sem ég hef unnið að í tvö og hálft ár er lokið,” sagði Sigurður Tómas, Rannsókn Baugsmálsins svo kallaða hófst með húsleit í höfuðstöðvum Baugs síðsumars 2002 í kjölfar þess að athafnamaðurinn Jón Gerald Sullenberger kærði forsvarsmenn fyrirtækisins.