Íslenski fjarskiptamarkaðurinn hefur tekið tíðum og reglulegum breytingum á síðustu tuttugu árum. Allt frá því að fyrstu farsímarnir fóru í almenna notkun á tíunda áratugnum og þar til snjallsímarnir hófu innreið sína hefur daglegt líf okkar litast af þessum smáu græjum. Þróun á fjarskiptamarkaði erlendis gefur til kynna að vænta megi enn frekari breytinga en ef marka má sérfræðinga á sviði fjarskiptamarkaðarins þá er framtíðin ekki einungis fólgin í hraðari og snjallari farsímum, heldur einnig í internettengingu ýmissa nytjahluta í kringum okkur.

Vægi gagnaflutninga eykst

Sé litið til þess hvernig þróunin hefur verið á íslenskum fjarskiptamarkaði á síðustu árum má sjá að vægi gagnaflutninga hefur aukist nokkuð á síðustu fimm árum. Í úttekt Póst- og fjarskiptastofnunar um fjarskiptamarkaðinn má sjá að 32% af heildartekjum fjarskiptamarkaðarins árið 2013 eru frá farsímarekstri en þar eru meðtaldar tekjur af hefðbundnum símtölum, sms skilaboðum og svo gagnaflutningum í gegnum 3G og 4G net fjarskiptafyrirtækja.

Athygli vekur að hefðbundinn talsímarekstur hefur haldið vægi sínu í gegnum árin en hann stóð í 13% af heildartekjum af fjarskiptastarfsemi á síðasta ári. Það er þó að merkja lítils háttar samdrátt þar sem vægi talsímareksturs árið 2009 nam 17% af heildartekjum í fjarskiptastarfsemi það árið. Gagnaflutningur og internetþjónusta nam 18% af heildartekjum fjarskiptamarkaðarins árið 2013 samanborið við 16% árið 2011.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .