Víglundur Þorsteinsson lögfræðingur sendi í gærkvöldi öllum þingmönnum bréf, eigin greinargerð og stofnúrskurði Fjármálaeftirlitsins (FME) fyrir nýju bankana sem stofnaðir voru með heimild í neyðarlögunum frá október 2008. Í greinargerðinni heldur hann því fram að framin hafi verið stórfelld lagabrot eftir að ákvörðunum FME um stofnúrskurði nýju bankanna var breytt. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu .

Víglundur segir hugsanlegt að ólögmætur hagnaður skilanefnda/slitastjórna af meintum fjársvikum og auðgunarbrotum kunni að nema á bilinu 300-400 milljörðum króna í bönkunum þremur. „Fæ ég ekki betur séð en það staðfestist með samanburði við stofnefnahag bankanna þriggja og skoðun á ársreikningum þeirra til ársins 2014,“ segir hann í greinargerðinni.

„Hér legg ég fram gögn sem staðfesta að bankarnir hafi eignast nettókröfur, eftir að búið var að afskrifa þær að stórum hluta. Vinstri stjórnin hún blekkti og laug allan tímann. Það var aftur og aftur logið, þegar því var haldið fram að staðhæfingar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um að afskriftirnar hefðu verið dregnar frá, áður en lánin voru flutt í nýju bankana, væru rangar,“ segir Víglundur í samtali við Morgunblaðið, en á vef blaðsins er hægt að kynna sér gögn hans.