Fjölgun starfa í Bandaríkjunum í desember var rétt undir væntingum, en þeim fjölgaði um 157.000 samanborið við væntingar um 175.000. Árið 2004 fjölgaði því störfum um alls 2,2 milljónir sem er mesta fjölgun þeirra síðan árið 1999 þegar þeim fjölgaði um 3,17 milljónir. Bandaríkin hafa samt sem áður ekki endurheimt öll þau störf sem töpuðist í síðasta efnahagssamdrætti sem átti sér stað á tímabilinu mars til nóvember árið 2001.

Í Hálffimm fréttum KB banka er bent á að hagfræðingar sjái almennt fyrir sér meiri fjölgun starfa í Bandaríkjunum á næstu mánuðum ásamt áframhaldandi hagvexti og hægari framleiðnivexti. Samkvæmt könnun Bloomberg á meðal hagfræðinga er spáð 3,6% hagvexti árið 2005, en hagvöxtur ársins 2004 er talinn hafa numið 4,4%. Síðastliðin 30 ár hefur hagvöxtur í Bandaríkjunum numið að meðaltali 3,1%. Atvinnuleysishlutfallið stendur nú í 5,4%, en samkvæmt ofangreindri könnun er því spáð niður í 5,2% í lok árs.