Störfum í Bandaríkjunum fækkaði óvænt um 63 þúsund í febrúarmánuði, sem er enn ein vísbendingin um að bandaríska hagkerfið sé að sigla inn í samdráttarskeið – ef það sé nú þegar ekki þegar hafið.

Þetta er annar mánurinn í röð sem störfum fækkar í Bandaríkjunum og jafnframt mesta fækkunin á einum mánuði frá því í mars árið 2003. Meðalspá greinenda á Wall Street hafði gert ráð fyrir því að störfum myndi þvert á móti fjölga um 23 þúsund í febrúar, að því er Bloomberg-fréttaveitan greinir frá.

Endurskoðaðar hagtölur sýndu einnig að störfum fækkaði um 22 þúsund í janúarmánuði, en ekki 17 þúsund líkt og bráðabirgðatölur höfðu áður gefið til kynna, að því er Vinnumálastofnun Bandaríkjanna greindi frá. Hefði það ekki verið fyrir aukningu í opinberum störfum í mánuðinum, þá hefði fækkunin numið meira en 100 þúsund.

Hlutfall atvinnulausra í febrúar lækkaði hins vegar nokkuð óvænt í 4,8% - það mældist í kringum 5% í janúar – eftir að vinnumarkaðurinn dróst saman um 450 þúsund manns, en ekki sökum fjölgunar starfa. Fram kemur í frétt Bloomberg að mikið af atvinnulausu fólki hafi gefist upp á því að leita sér að vinnu.

Hagfræðingar segja að þessar hagtölur – ásamt lækkandi húsnæðisverði, hækkandi olíuverði og þrengingum á fjármagnsmörkuðum – auki enn frekar líkurnar á því að það muni draga verulega úr einkaneyslu almennings. Slík þróun mun svo aftur ýta undir væntingar fjárfesta um að Seðlabanki Bandaríkjanna muni lækka stýrivexti um 75 punkta á fundi sínum 18. mars næstkomandi – úr 3% í 2,25%.