Bandaríska stórsöngkonan Dionne Warwick hefur verið lýst gjaldþrota. Hún er 72 ára og ætti alla jafna að lifa góðu lífi eftir að hafa gert það gott á tónlistarsviðinu síðastliðna hálfa öld eða svo. Erlendir fjölmiðlar segja Warwick hins vegar hafa trassað að greiða skatta af tekjum sínum á sama tíma og hún hafi lifað hátt. Nú þegar eindagar hafi loksins runnið upp verði söngkonan að draga fram lífið á 10 dölum á mánuði þegar hún er búin að greiða af lánum og opinberum gjöldum. Það gera um tólf hundruð íslenskar krónur.

Þetta er annað skiptið á 20 árum sem Warwick fer fram á gjaldþrot samkvæmt bandarískum gjaldþrotalögum. Síðast gerði hún það í Kaliforníu árið 19993. Málið leystist hins vegar fimm árum síðar þegar hún lét þrjár bifreiðar upp í skuldir.

The Daily News hefur upp úr 50 blaðsíðna skýrslu sem Warwick skilaði inn til yfirvalda nýverið að skuldir hennar nemi 10,7 milljónum dala, jafnvirði 1,3 milljarða íslenskra króna. Verðmæti eigna hennar nema 10.500 dölum, jafnvirði 1,3 milljóna króna. Þar á meðal er tveggja ára gömul fartölva, kjólar og annar fatnaður auk húsgagna sem sér á.

Mánaðartekjur Warwick nema 20.950 dölum á mánuði, jafnvirði 2,6 milljóna króna, og eru útgjöldin 20.940 dalir. Tíu dollarar standa út af. Megnið af skuldum hennar eru uppsafnaðar skattaskuldir auk þess sem hún skuldar fyrrverandi umboðsmanni sínum hálfa milljón dala og kreditkortaskuldir upp á 20.000 dali. Skattaskuldin hafði safnast upp á 17 árum eða 1990 til 2007.

Warwick hefur sungið inn á plötur sem hafa selt í rúmlega 100 milljónum eintaka og hlotið fimm Grammy-verðlaun. Ekki kemur fram í gjaldþrotaskjölunum hvað varð um gullplötur og verðlaun sem hún hefur fengið á löngum ferli.