Samtök atvinnulífsins telja ekki forsendur fyrir uppsögn kjarasamninga. SA telja forsendur um aukinn kaupmátt á samningstímanum hafa staðist og að launastefna kjarasamninga Samtaka atvinnulífsins og aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands hafi reynst stefnumarkandi. Þetta kemur fram í yfirlýsingu samtakanna sem var afhent á fundi forsvarsmanna SA og viðræðunefndar samninganefndar ASÍ í hádeginu í dag.

Forseti ASÍ sagðist hins vegar í samtali við RÚV búast við einhverju útspili stjórnvalda vegna kjarasamninga, en koma verði í ljós hvort það slái á óánægjuna innan sambandsins. Hann segir Samtök atvinnulífsins ekki bjóða neitt núna.

Í yfirlýsingu SA segir að kjarasamningar sem gerðir hafa verið undanfarna tólf mánuði séu, að mati Samtaka atvinnulífsins, í samræmi við þá launastefnu sem mótuð var með kjarasamningum aðila. Á framangreindu tímabili hafi samninganefnd ríkisins undirritað kjarasamninga við Læknafélag Íslands, Skurðlæknafélag Íslands og 14 aðildarfélög BHM. Á almennum vinnumarkaði hafi ekki verði gerðir aðrir kjarasamningar en milli Samtaka atvinnulífsins, fyrir hönd einstakra fyrirtækja, og stéttarfélaga sem starfsmenn þeirra eiga aðild að.

ASÍ telur að forsendur hafi brostið og kallar eftir viðbrögðum vegna hins meinta forsendubrests. Að mati Samtaka atvinnulífsins er þeim ófært að bregðast við forsendubresti sem ekki er fyrir hendi.

Því má segja að boltinn sé í höndum hins opinbera en sólarhringur er í að niðurstaða þurfi að liggja fyrir um hvort samningum verði sagt upp. Það lítur því allt út fyrir að störukeppni stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins muni standa fram á síðustu mínútu.