Nova varð í dag 100. fyrirtækið til að skrifa undir samgöngusamning við Strætó. Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs., og Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova, skrifuðu undir samninginn í höfuðstöðvum Nova í morgun. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Strætó bs.

Aukin áhersla á umhverfismál og áhugi á heilbrigðari lífsháttum hefur gert það að verkum að æ fleiri kjósa að nýta sér vistvænar samgöngur. Strætó bs. býður fyrirtækjum sem vilja sýna umhverfisvernd í verki að kaupa strætókort fyrir starfsfólk á vistvænum kjörum. Fyrirtækið þarf að hafa markað sér stefnu í samgöngumálum á ábyrgan hátt. Stjórnendur þess þurfa að viðhalda þeirri stefnu af heilum hug og hvetja starfsfólk til að nota vistvænar samgöngur.

Starfsmenn sem nýta sér almenningssamgöngur eða vistvæna samgöngumáta þurfa ekki að telja samgöngustyrk að upphæð allt að 7.000 kr. á mánuði fram til skatts. Skilyrðið er þó að þeir hafi gert formlegan samgöngusamning við launagreiðenda um nýtingu almenningssamgangna eða annarra vistvænna ferðamáta.

„Ég hef gert samgöngusamning við Nova og fæ skattfrjálsan samgöngustyrk,“ segir Jakob Árni Ísleifsson, tölvunarfræðingur hjá Nova. „Við konan mín höfum hjólað mikið og þetta hefur sparað okkur það að eiga tvo bíla. Ég er mjög ánægður með þetta fyrirkomulag og vil hvetja sem flesta til að nýta sér þetta. Best væri auðvitað ef upphæðin væri hærri.“

Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova, segir að frumkvæðið hafi komið frá starfsmönnum.  „Það er hópur starfsmanna innan fyrirtækisins sem skilur bílinn eftir heima og nú þegar Ríkisskattstjóri býður upp á þessa leið þá er  um að gera að nýta sér það.“ Liv segir að nú hafi 20 starfsmenn gert samgöngusamning við Nova og miðað við jákvæðan áróður þess hóps innan fyrirtæksiins þá má gera ráð fyrir að fleiri sláist í hópinn.

Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir ánægjulegt hve mörg fyrirtæki sjá sér hag í því að gera samning við Strætó um samgöngukort. „Segja má að það séu ekki bara fyrirtækin sem hagnast með auknum þægindum, meira hagræði og betri starfsanda, heldur samfélagið allt. Samgöngur á 21. öld kalla á nýjar og vistvænni aðferðir til að komast á milli staða í borgarsamfélaginu. Almenningssamgöngur eru mikilvægur þáttur í að fækka einkabílum á götunum og létta umferð fólks og farartækja.“

Nova er 100. fyrirtækið sem skrifar undir samning við Strætó, en tæmandi lista yfir fyrirtækin er að finna á heimasíðu Strætó http://www.straeto.is/kaupa-farmida-og-kort/samgongukort/ Starfsfólk þessara fyrirtækja geta keypt sér 12 mánaða kort hjá Strætó á 49.900 krónur, en fengið á móti skattfrjálsan samöngustyrk frá vinnuveitenda sínum. Sé miðað við tvær ferðir á dag, fimm daga vikunnar í 12 mánuði, þýðir það að hver ferð kostar 96 krónur.