Leið númer 55 mun keyra níu ferðir á dag milli miðborgar Reykjavíkur og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar í Keflavík frá byrjun janúar. Þetta kemur fram í frétt Túrista .

Vagnar munu stoppa við Kringluna, Fjörð í Hafnarfirði og Keili í Reykjanesbæ, meðal annarra stoppistöðva. Strætómiði á milli mun kosta 1.400 krónur og hægt verður að nota skiptimiða í aðra vagna. Til samanburðar kostar farið með Airport Express 1.900 krónur aðra leið og 3.400 báðar leiðir og 1.950 aðra leið með Flugrútunni og 3.500 báðar leiðir.

Fyrsti vagn mun leggja af stað frá Umferðarmiðstöðinni klukkan 6.23 og koma í flugstöðina klukkan 7.40. Því verður ekki hægt að nota vagnana til að komast í morgunflug Icelandair eða Wow.

Þessar nýju samgöngur eru samstarfsverkefni milli Strætó og Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.