Kröfuhafar tóku formlega við stjórn Straums, sem nú er rekinn undir nafninu ALMC hf., á hluthafafundi á Nordica í morgun. „Skilanefndin hefur lokið störfum," segir Reynir Vignir formaður skilanefndarinnar. Hann segir þetta töluverð tímamót. Straumur sé fyrsti bankinn sem kröfuhafar taka alfarið yfir samkvæmt neyðarlögunum. Þeir stjórni nú og eigi félagið.

Kröfuhafar kusu þrjá menn voru í stjórn ALMC hf. í morgun. Það er bandaríkjamaðurinn  Christopher Perrin, austurríkismaðurinn Klaus Requat og svo Óttar Pálsson sem var forstjóri bankans.

ALMC er eignarhaldsfélag sem hefur það verkefni að halda utan um og vinna úr eignum sem heyrðu undir Straum. Undir því hefur verið stofnað dótturfélag sem verður ef allt gengur eftir fjárfestingarbanki. Óttar Pálsson segir þau áform óbreytt. Þjónustusamningur hefur verið gerður við dótturfélagið um ákveðna þjónustu við eignarhaldsfélagið eins og bakvinnslu, áhættustjórnun, upplýsinga- og tæknimál og fleira.

Ferlið tók aðeins 18 mánuði

Reynir Vignir sagði skilanefndina stolta af því að ljúka þessu ferli á aðeins 18 mánuðum. Á þeim tíma hefði félagið meðal annars farið í gegnum nauðasamninga og kröfuhafar hefðu lýst sig ánægða með allt ferlið á fundinum í morgun.

Undir þau orð tekur Óttar Pálsson. Hann segir nú unnið samkvæmt ákveðinni áætlun við úrvinnslu eigna. Kröfuhafarnir stjórni því ferli í gegnum stjórnina sem kjörin var til þess verks á hlutahafafundinum.