Hugo Chavez, forseti Venesúela, hefur tilkynnt að ríkisstjórn hans hyggst þjóðnýta stærsta stálframleiðanda landsins, nokkrum dögum eftir að ríkisstjórnin tók yfir sementsiðnaðinn þar í landi.

Stálfyrirtækið sem um ræðir, Sidor, er í eigu fyrirtækisins Ternium, sem er frá Lúxemborg. Hlutabréf í Ternium féllu um 9% á Bandaríkjamarkaði þegar tilkynnt var um fyrirhugaða þjóðnýtingu. Á undanförnum tveimur árum hefur ríkisstjórn Chavez tekið yfirráð yfir fjarskiptafyrirtækjum orkufyrirtækjum og gasfyrirtækjum í eigu erlendra aðila. Ríkisstjórnin á nú 20% af Sidor og hótaði að taka yfirráð fyrirtækisins í sínar hendur ef fyrirtækið byrjaði ekki að selja meira af stálinu sem það framleiðir til Venesúela.