Bjartsýni á meðal leiðtoga í þýsku viðskiptalífi nær nýjum hæðum í mars, þvert á spár um að hún færi þverrandi. Könnun Ifo stofnunarinnar sýnir að vísitalan hækkar í mánuðinum og stendur nú í 105,4 stigum, en var 103,4 stig í febrúar.

Hagfræðingar spáðu því að hún lækkaði niður í 102,9. Samhliða þessum tíðindum berast fréttir af því að peningamagn í umferð, M3, jókst um 8% á evrusvæðinu í febrúar.

Citigroup kann að bjóða í Finansbank

Líklegt er að forstjóri Citigroup, sem heitir því skemmtilega nafni Charles Prince, setji fram tilboð fyrir hönd bankans í tyrkneska bankann Finansbank upp á 5 milljarða dollara eða meira í reiðufé. Bandaríski seðlabankinn setti skorður við því fyrir ári síðan að Citigroup sameinaðist stórum fyrirtækjum.

GUS setur fram áætlun um að skipta sér upp

Breska smásölusamsteypan GUS setur fram 12 mánaða áætlun um að skilja á milli smásölu- og fjármálaþjónustuhluta starfseminnar, sem myndi binda enda á feril fyrirtækisins sem risasamsteypa. Fyrirtækin tvö sem verða til við aðskilnaðinn, Argos Retail Group og Experian, verða skráð í kauphöllinni í London sitt í hvoru lagi.

Hagnaður Swiss Life hækkar um helming

Hagnaður líftryggingafélagsins Swiss Life á árinu 2005 nam 860 milljónum franka, eða 48 milljörðum króna. Árið áður nam hann 579 milljónum svissneskra franka og skýrist aukningin á hækkandi iðgjöldum og minnkandi kostnaði. Sérfræðingar höfðu spáð 742 milljóna franka hagnaði.

Vinci tilkynnir um hlutafjáraukningu

Franska verktakafyrirtækið Vinci tilkynnir að það hyggist auka hlutafé um 2,53 milljarða evra, eða 222 milljarða króna, til að fjármagna kaup á Autoroutes du Sud de la France, sem rekur þjóðvegi í Frakklandi.

Frönsk stjórnvöld ýta á stjórn Thales

Franska stjórnin beitir nú stjórn hergagnaframleiðslufyrirtækisins Thales þrýstingi um að samþykkja í vikunni að kaupa gervihnattarekstur Alcatel og aðrar eignir, í skiptum fyrir reiðufé og hlutafé, að sögn The Wall Street Journal.

Engar landnemabyggðir utan tálma á Vesturbakkanum

Forsætisráðherra Ísraels, Ehud Olmert, skrifar í þarlent dagblað að engar landnemabyggðir verði austan við girðinguna á Vesturbakkanum.

Fyrrum byltingarfélagar í Úkraínu ræða saman

Þrýstingur eykst á forseta Úkraínu, Viktor Jútsénkó, að hefja á ný viðræður við fyrrum liðsmenn appelsínugulu byltingarinnar, þar sem samanlagður stuðningur við þá er meiri en við stjórnarandstöðuna, sem er höll undir Rússa.