Hagnaður þýska Siemens raftækjarisans nam 887 milljónum evra (83 milljörðum króna) á öðrum fjórðungi reikningsárs, borið saman við 781 milljón evra (73 milljarða króna) á sama tíma 2005.

Aukningin er að sögn fyrirtækisins vegna góðs rekstrar hjá iðnaðar-, lækningatækja- og bifvélatækjadeildum þess. Þá sagði í tilkynningu að Siemens hefði styrkt stöðu sína í framleiðslu á lækningatækjum með því að taka yfir bandaríska fyrirtækið Diagnostic Products, fyrir 1,86 milljarða dollara (140 milljarða króna) í reiðufé.

Bouygues kaupir hlut franska ríkisins í Alstom

Bouygues hefur samið um að kaupa 21% hlut franska ríkisins í iðnaðarfyrirtækinu Alstom fyrir tvo milljarða evra, eða 187 milljarða íslenskra króna. Í framhaldinu munu fyrirtækin hefja með sér samstarf í rekstri og markaðssetningu.

Credit Suisse ætlar að sameina fjárfestingabanka

Credit Suisse hefur í hyggju að sameina dótturfélög sín í fjárfestingabankastarfsemi í einn sjálfstæðan banka. Samlegðaráhrif eru talin verða um 100 milljónir svissneskra franka á ári, eða sex milljarðar íslenskra króna, frá og með árinu 2008. Nýi bankinn hefur fengið nafnið Clariden Leu.

Atvinnuleysi minnkar í Þýskalandi

Atvinnulausum í Þýskalandi fækkar um 40.000 í apríl, eftir að leiðrétt hefur verið fyrir árstíðasveiflum. Þetta er nokkuð yfir spám sérfræðinga, sem hljóðaði upp á 35.000, en í mars fjölgaði þeim um 30.000.

McClatchy semur um sölu á 4 dagblöðum

Fjölmiðlarisinn McClatchy samþykkir að selja fjögur dagblöð til MediaNews Group og Hearst fyrir milljarð dollara, 75 milljarða íslenskra króna, í reiðufé. Salan er fyrsti liður í aðgerðum McClatchys sem miða að því að létta á dagblaðarekstri samsteypunnar, en dagblöðin eru hluti af Knight-Ridder fyrirtækinu, sem McClatchy er að taka yfir.

Hagnaður Bayer lækkar um 8%

Hagnaður efna- og lyfjafyrirtækisins Bayer lækkar um 8% á fyrsta ársfjórðungi og nemur 600 milljónum evra, eða 56 milljörðum króna, borið saman við 652 milljónir evra á sama tímabili 2005. Spá sérfræðinga hafði hljóðað upp á 642 milljónir evra.

Hagnaður Skanska lækkar um 39%

Sænska byggingarfyrirtækið Skanska tilkynnir að hagnaður fyrsta ársfjórðungs nemi 494 milljónum sænskra króna (5 milljörðum íslenskra), miðað við 810 milljónir sænskra á sama tímabili 2005. Minnkandi söluhagnaði er kennt um.

Iberdrola skilar auknum hagnaði

Rafmagnsfyrirtækið Iberdrola tilkynnir að hagnaður á fyrsta fjórðungi ársins nemi 403 milljónum evra, 37,7 milljörðum króna, borið saman við 347 milljónir evra á fyrra ári. Eykst hagnaður því um 16% á milli ára. Sérfræðingar spáðu 397 milljóna evra hagnaði. Tekjur af alþjóðlegri starfsemi og framleiðslu á endurnýjanlegri orku vógu upp tap vegna herts regluverks.