Ráðherrar frá 12 ESB löndum skrifuðu sameiginlegt bréf til yfirmanns verslunarmála sambandsins til stuðnings við fríverslunarsamning við Bandaríkin.

Umdeildur fríverslunarsamningur

Samningurinn sem gengur undir nafninu TTIP (Transatlantic Trade and Investment Partnership) hefur verið umdeildur beggja vegna Atlantshafsins, en ríkisstjórnir Bandaríkjanna og stjórnvöld í Brussel hafa sammælst um að klára málið áður en Obama forseti yfirgefur embættið í janúar.

Í síðasta mánuði kallaði viðskiptaráðherra Frakklands eftir því að viðræðunum skyldi hætt og nokkrum dögum áður hafði efnahagsmálaráðherra Þýskalands, Sigmar Gabriel, sagt að viðræðurnar hefðu í raun mistekist.

Tækifæri til að móta verslunarreglur

Angela Merkel kannslari Þýskalands hefur hins vegar stutt viðræðurnar. Meðal þeirra 12 sem skrifuðu undir bréfið til Cecilia Malmstrom sem sér um málefni verslunar fyrir Evrópusambandið, voru ráðherrar viðskipta og verslunar frá Ítalíu, Spáni og Bretlandi.

Sögðu þeir að TTIP væri tækifæri til að móta verslunarreglur og ætti að nýta það til fullnustu. „Við hlökkum til áframhalds TTIP viðræðnanna...og ætlum að vinna náið með ráðherraráðinu á komandi mánuðum,“ er meðal þess sem segir í bréfinu.

Áhrif á kosningar á næsta ári

Á næsta ári stefnir í kosningar í bæði Frakklandi og Þýskalandi, og má greina að stjórnmálamenn séu að bregðast við varhug almennings við viðræðunum, sem gagnrýnendur segja að muni lækka umhverfis og matarstaðla og leyfa erlendum stórfyrirtækjum að hafa áhrif á stefnu stjórnvalda.

Jafnframt lýstu ráðherrarnir yfir stuðningi við fríverslunarsamninginn CETA (Comprehensive Economic and Trade Agreement), sem ESB hefur þegar gert við Kanada og sögðust þeir hlakka til þess að skrifa undir samninginn 27. október komandi í Brussel.

„Við verðum að ýta undir fríverslun sem jafnframt tryggir réttindi verkamanna, verndar náttúruna, heilsu fólks og lýðræðislegt rými okkar,“ segir enn fremur í bréfinu.