Bloomberg fréttaveitan fjallar um stýrivaxtahækkun Seðlabankans frá því í morgun og segir verðbólgu í landinu vera þrefalt yfir verðbólgumarkmiðum bankans.

Þá kemur fram í frétt Bloomberg að fimm af níu sérfræðingum sem fréttaveitan hafði talað við hefðu búist við óbreyttum stýrivöxtum á meðan hinir fjórir bjuggust við hækkun.

„Þetta staðfestir að þeir (Seðlabankinn) ætla að bregðast við verðbólguviðhorfum,“ hefur Bloomberg eftir Kristrúnu Gunnarsdóttur, hagfræðing hjá Landsbankanum.

Ónafngreindur viðmælandi Bloomberg segir að vaxtaákvörðun Seðlabankans muni ekki styrkja krónuna þar sem engar áætlanir liggi fyrir um að auka gjaldeyrisforða bankans. „Seðlabankinn þarf að styrkja gjaldeyrissjóðinn sinn ætli hann sér að hafa bolmagn til að lána viðskiptabönkunum gerist þess þörf,“ segir í frétt Bloomberg.

Vonbrigði og verðbólga

„Það eru engar fyriráætlanir um að bregðast við því sem við vorum að vonast eftir,“ segir Jón Bjarki Bentsson, hagfræðingur hjá Glitni. „Þetta eru vissulega vonbrigði.“

„Það eru vonbrigði fyrir markaðinn að þeir skuli ekkert annað ætla að gera en að hækka stýrivexti,“ segir Beat Siegenthaler, sérfræðingur hjá TD Securities í Lundúnum.

Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningadeildar Kaupþings í samtalið við Bloomberg fyrir vaxtahækkunina að vegna veikingar krónunnar muni Íslendingar fá á sig verðbólguskot sem gangi hratt yfir.

Hér má nálgast frétt Bloomberg.