Greiningardeild Íslandsbanka telur að Seðlabankinn muni hækka stýrivexti sína í 12% á næsta ári, en áður hafði greiningardeildin reiknað með að stýrivextir færu hæst í 11%.

?Við teljum að Seðlabankinn muni hæst fara með stýrivexti sína í 12% á næsta ári. Bankinn boðar frekari vaxtahækkun í nýjustu útgáfu Peningamála og segir að verðbólguhorfur hafi versnað. Peningalegt aðhald var ekki nægilegt um aldamótin að mati bankans sem segir ofþensluna nú meiri en þá," segir í Morgunkornum Íslandsbanka.

Um aldamótin fóru stýrivextir fóru hæst í 11,4% og raunstýrivextir í ríflega 7%, samkvæmt upplýsingum greiningardeildar Íslandsbanka. Nú standa stýrivextir hins vegar í 10,25% og raunstýrivextir í um 5,5% miðað við nýjustu verðbólgutölur.

?Af þessu má ljóst vera að Seðlabankinn hyggst hækka vexti sína meira á næstunni og teljum við að hæst muni bankinn fara með þá í 12% á þessu þensluskeiði. Ekki er útilokað að bankinn hækki vexti enn frekar," segir greiningardeildin.

Vaxtahækkanir Seðlabankans hafa hvatt til skulabréfaútgáfu erlendra aðila í íslenskum krónum og orðið til þess að styrkja krónuna enn frekar.

?Vaxtahækkun Seðlabankans hefur óhentuga hliðarverkun um þessar mundir þar sem hún hvetur til frekari útgáfu erlendra skuldabréfa í krónum. Sú útgáfa stuðlar með óbeinum hætti að lækkun vaxtarófsins hér á landi, þvert á markmið Seðlabankans. Óvenju mikla stýrivaxtahækkun gæti því þurft til að hækka vaxtarófið upp að því sem þóknast Seðlabankanum."