Janet Yellen, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, telur að efnahagurinn þar í landi verði tilbúinn fyrir stýrivaxtahækkun síðar á þessu ári. Stýrivextir í Bandaríkjunum hafa verið nálægt núlli í ansi langan tíma og hefur verið búist við hækkun undanfarna mánuði, í raun frá síðasta ári.

Til þessa hefur Seðlabankinn þó ekki þorað að hækka vextina en Yellen býst við því að það verði gert fyrir áramót.

„Miðað við hvernig hlutirnir horfa fyrir mér býst ég við því að það verði æskilegt að taka fyrsta skrefið í átt að vaxtahækkun síðar á þessu ári, þannig að við peningastefnan geti farið að færast í eðlilegt horf,“ sagði Yellen í ræðu sinni í dag.

Hún bætti því þó við að þessi skoðun hennar miðist við núverandi gögn og telur að Seðlabankinn gæti bæði hækkað vexti fyrr eða síðar eftir því hvernig gögnin þróast.