Seðlabanki Kína tilkynnti í dag að bankinn hefði ákveðið að lækka stýrivexti en þetta er í fyrsta skipti í sex ár sem stýrivextir lækka þar í landi að sögn Reuters fréttastofunnar.

Þannig munu stýrivextir lækka úr 7,47% niður í 7,2% en lækkunin tekur gildi á morgun þar sem í dag er frídagur í Kína. Þá mun Seðlabanki Kína einnig lækka viðmið sitt um eigið fé banka þar í landi um 1%.

Ákvörðun Seðlabankans þykir koma á óvart að sögn BBC, þá sérstaklega í ljósi þess óróa sem skapast hefur á fjármálamörkuðum í dag vegna gjaldþrots bandaríska fjárfestingabankans Lehman brothers.

„Við áttum svo sem von á því að Seðlabankinn hér í Kína myndi slaka á peningamálastefnu sinni fyrr en síðar, en við áttum ekki von á því svona snemma,“ segir Gao Huiqing, hagfræðingur hjá State Information Centre í Kína sem er ríkisrekin hugveita.