Seðlabankinn mun hækka stýrivexti um 75 punkta á næstu mánuðum og verður sú hækkun farin í þremur skrefum, telur greiningardeild Landsbankans.

Greiningardeildin spáir því að Seðlabankinn muni hækka stýrivexti sína um 25 punkta í þremur skrefum sem tekin verða 26. janúar þegar fyrsti formlegi vaxtaákvörðunarfundur Seðlabankans mun fara fram.

Önnur hækkunin kemur til 30. mars næstkomandi samfara útgáfu Peningamála og sú þriðja 18. maí þegar annar vaxtaákvörðunarfundur bankans verður haldinn. Eftir þessa vaxtahækkunarlotu verða vextir bankans komnir í 11,25% og hærra munu þeir ekki fara í núverandi uppsveiflu.

Landsbankinn segir þessar tiltölulega hóflegu vaxtahækkanir taka mið af þeirri flóknu stöðu sem upp er komin við stjórn peningamála nú þegar erlend skuldabréfaútgáfa í íslenskum krónum er komin yfir 150 milljarða. Á sama tíma blasir við að gengi krónunnar hlýtur fyrr eða síðar að gefa eftir vegna hratt vaxandi ójafnvægis í þjóðarbúskapnum.

Með því að halda vaxtamun gagnvart útlöndum háum í um það bil eitt ár til viðbótar reynir Seðlabankinn að koma í veg fyrir að of hröð gengislækkun skapi hættu á verðbólguskoti. Gengisspá Landsbankans gerir ráð fyrir hægfara veikingu krónunnar á næsta ári og að gengisvísitalan verði rétt um 120 stig í lok ársins.

"Við reiknum nú með að stýrivextir fari heldur hærra en við höfum áður talið og að auki gerum við nú ráð fyrir að þeim verði haldið lengur í hámarki. Eins og staðan er í dag er því ekki hægt að reikna með að stýrivextir fari að lækka á ný fyrr en í ársbyrjun 2007," segir greiningardeild Landsbankans.

"Þessi breytta sýn á þróun stýrivaxta er að meginhluta byggð á þeirri áherslu sem Seðlabankinn leggur á mikilvægi þess að viðhalda aðhaldsstigi peningastefnunnar nú þegar augljóst er að gengi krónunnar mun fyrr eða síðar láta undan og leita jafnvægis eftir að núverandi hágengistímabili lýkur. Þegar Seðlabankinn segir að; "vaxtamunurinn við útlönd þarf að vera nægur til þess að stuðla að hægfara aðlögun gengisins" er augljóslega verið að boða þá stefnu að reynt verði í lengstu lög að koma í veg fyrir að gengið lækki eins hratt og gerðist á árunum 2000-2001."