Undanfarið hafa staðið yfir samningaviðræður við þrettán ríki ESB, sem munu njóta greiðslna úr Þróunarsjóði EFTA, um hvernig beri að koma sniði á sjóðinn, skipuleggja hann og hafa eftirlit með honum. Með viðræðunum er stefnt að undirritun samkomulags (Memorandum of Understanding, MoU) milli EFTA-ríkjanna annars vegar og þeirra ríkja sem munu njóta greiðslna úr sjóðinum hins vegar. Þegar hefur verið skrifað undir slíkt samkomulag við Eistland, Lettland, Litháen, Pólland, Portúgal, Slóvakíu og Tékkland, og hafa þessar viðræður tekið lengri tíma en upphaflega var áætlað.

Ráðgert er að skrifa undir samkomulag við Möltu, Slóveníu og Spán nú í apríl og Grikkland, Kýpur og Ungverjaland í maí og júní á þessu ári. Þar með lýkur þessum viðræðum en þær hafa staðið yfir frá því í ársbyrjun 2004.

Opnað verður fyrir umsóknir til sjóðsins á næstu vikum, en valnefndir í viðkomandi ríkjum þurfa að fjalla um umsóknir um verkefni áður en þær berast stjórn Þróunarsjóðsins. Nokkurn tíma hefur tekið að móta umsóknarferlið innan stjórnsýslu þeirra ríkja sem njóta greiðslna úr Þróunarsjóðnum. Nú sér hins vegar fyrir endann á þeirri vinnu og ættu fyrstu umsóknir að geta farið að berast á næstu vikum og mánuðum. Ekki er
ljóst hve langur afgreiðslutími umsókna verður en gera má ráð fyrir 6-12 mánuðum þó ekki sé hægt að segja fyrir um það.

Að sögn Martins Eyjólfssonar, sendifulltrúa og fulltrúa Íslands í stjórn Þróunarsjóðsins, er þátttaka fyrirtækja eða stofnana í EFTA-ríkjunum ekki skilyrði fyrir því hvort verkefni á vegum þróunarsjóðsins teljist styrkhæf. ,,Hins vegar höfum við lagt ríka áherslu á að koma þeim sviðum á framfæri þar sem styrkur íslenskra fyrirtækja liggur. Við lögðum til að mynda áherslu á endurnýtanlega orkugjafa, auðlindastjórnun, lausnir í
umhverfismálum og svið þar sem hugbúnaðarlausnir geta nýst vel. Þessu hefur verið komið kirfilega á framfæri við öll tækifæri og það hefur skilað sér bæði í bókun 38a við EESsamninginn, sem leggur grunninn að Þróunarsjóðnum, og eins í þeim samningum (MoU) sem verið er að undirrita nú um þessar mundir. Auk þess ríkir ákveðinn skilningur á því að
æskilegt sé að hluti þess fjár sem í sjóðnum er gangi til verkefna sem styrkir tengslin milli EFTA-ríkjanna og styrkþegaríkjanna?, sagði Martin Eyjólfsson í samtali við Stiklur vefrit utanríkisráðuneytisins.

Almenna reglan er að auglýst verður eftir tillögum að verkefnum, þó einhverjar undantekningar verði þar á. Auglýsingar verða birtar á heimasíðu Þróunarsjóðsins sem hefur slóðina www.eeagrants.org. Á næstunni verða haldnir tveir kynningarfundir sem auglýstir verða nánar þegar nær dregur. Sá fyrri fer fram í Reykjavík um miðjan maí og þar
munu m.a. starfsmenn Þróunarsjóðsins flytja erindi. Mánuði síðar fer fram kynning í Brussel þar sem m.a. verða fulltrúar frá öllum þeim ríkjum sem munu njóta styrkja úr sjóðnum.