*

þriðjudagur, 16. júlí 2019
Fjölmiðlapistlar 14. júlí 2018 13:43

Sumar fréttir...

Það er velþekkt um hásumarið að fréttamat fjölmiðla virðist stundum breytast lítið eitt. Ýmsar furðufréttir virðast eiga greiðari aðgang en allajafna og eins fréttir með léttara yfirbragði.

Andrés Magnússon
Aðsend mynd

Það er velþekkt um hásumarið að fréttamat fjölmiðla virðist stundum breytast lítið eitt. Ýmsar furðufréttir virðast eiga greiðari aðgang en allajafna og eins fréttir með léttara yfirbragði. Hugsanlega er það bara sumarstemningin að hafa áhrif á menn (þó sumarsins kunni ekki að gæta að öðru leyti!), en svo hafa sumarleyfi líka áhrif á fréttastreymið, það hægist um á flestum vinnustöðum og bæði helstu verkmenn og vandræðamenn þjóðfélagsins síður tilefni frétta en endranær. Og svo eru auðvitað sumarleyfi á fjölmiðlum líka, færri að skrifa fréttir og meira um óvana sumarmenn, sem stundum hefur áhrif á afurðirnar.

Það er þó ekki aðeins þannig að fréttirnar verði færri og smærri, stundum komast frekar að fréttir með mannlegu ívafi, sem þó geta vel átt erindi. Kristján Már Unnarsson á Stöð 2 hefur t.d. átt fína spretti, eins og með frétt um fornaldarvélar Rjómabúsins á Baugsstöðum austan Stokkseyrar, sem verða gangsettar fyrir niðurrignda ferðamenn nú í sumar, og af íþróttafræðingi á Vopnafirði, sem hefur upp á sitt einsdæmi hafið átak til að hvetja heimamenn og ferðamenn til aukinnar hreyfingar og útivistar í héraðinu. Engar stórfréttir, en gott efni samt.

***

Aðrar og ískyggilegri sumarfréttir mega heita árvissar, en það eru fregnir af aðvífandi hvítabjörnum, sem leita til Íslands undan sumarhitum á Grænlandi. Hins vegar hefur þakkarsamlega oft gengið erfiðlega að fá fréttirnar staðfestar, því bangsarnir virðast lagnir í að láta sig hverfa. Það er að segja þeir þeirra, sem ekki eru hestar eða sauðfé. Að öllu gamni slepptu, þá er það auðvitað mikið alvörumál ef hvítabirnir ganga á land, en þeir eru alls ósmeykir við manninn og geta verið árásargjarnir. Það er því rétt að taka öllum ábendingum um þá af alvöru. Fjölmiðlar mættu þó að ósekju stundum fara sér aðeins hægar í frásögnum af þeim, a.m.k. meðan ekki liggur fyrir nein staðfesting um að þar ræði í raun og veru um bjarndýr.

***

Fréttir af vinnudeilum ljósmæðra og ríkisins hafa verið einstaklega fyrirferðarmiklar síðastliðnar vikur, eins og skiljanlegt er. Fregnir af átökum af vinnumarkaði eru vandmeðfarnar, enda togast þar jafnan á miklir hagmunir, einatt blandnir miklum tilfinningum. Þeim mun mikilvægara er að fjölmiðlar gæti þess að láta ekki spila með sig. Almenningsálit skiptir miklu í þeim efnum og miðlarnir verða að gæta þess að verða ekki almenningstengslaupphlaupum deiluaðila að bráð, heldur halda sig við fréttirnar.

***

Síminn hefur að undanförnu kvartað undan viðskiptaháttum Ríkisútvarpsins (RÚV) við auglýsingasölu í kringum útsendingar frá HM í fótbolta, en Samkeppniseftirlitið taldi að framkomnum skýringum RÚV ekki ástæðu til frekari rannsóknar. Síminn hefur hins vegar greint frá því að hann muni afhenda samkeppnisyfirvöldum frekari gögn varðandi auglýsingasölu RÚV í tengslum við HM í knattspyrnu, sem sýni fram á hið gagnstæða. Meðal gagna eru auglýsingasamningar, tilboð og tölvupóstar, en fróðlegt verður að sjá hvað úr því máli verður. Fréttastofa RÚV sagði á mánudag ýtarlega frétt af því að Samkeppniseftirlitið hygðist ekkert aðhafast í málinu, en hefur (þegar þetta er skrifað á miðvikudagseftirmiðdegi) ekki sagt múkk um þessi gögn Símans. Er það ekki skrýtið?

***

Aftur á móti má á vef Ríkisútvarpsins lesa ýmsar fréttir um traust landsmanna til stofnunarinnar. Þar er t.d. vitnað til „nýrrar“ viðhorfskönnunar Gallups (frá í maí), sem sýni að þjóðin hafi ekki verið jafnjákvæð gagnvart RÚV og þjónustu þess síðan fyrir hrun. Rúmlega 74% aðspurðra kváðust jákvæð gagnvart Ríkisútvarpinu, um 17% svöruðu „hvorki né“ og 9% sögðust mjög eða frekar neikvæð gagnvart RÚV. Sömuleiðis sögðust flestir leita frétta eða fréttatengds efnis á miðlum RÚV eða um 44% svarenda í viðhorfskönnun, en Morgunblaðið og mbl.is voru í öðru sæti með 27% svarenda.

Þetta rímar ágætlega við aðra könnun, sem RÚV lét MMR gera fyrir sig um svipað leyti, þar sem leitast var við að mæla traust til fjölmiðla, og einnig er sagt frá á vef RÚV. Samkvæmt henni nýtur fréttastofa RÚV yfirburðatrausts landsmanna til fréttastofu RÚV, en alls sögðust 70% aðspurðra bera mikið traust til fréttastofu RÚV, sem er á svipuðu róli og MMR spurði um fyrir RÚV í fyrra, en mældist traustið að meðaltali 67,5%. Samkvæmt fregn RÚV stóðu aðrir miðlar RÚV langt að baki að þessu leyti, án þess að það væri tíundað neitt nánar.

Nú eru traustmælingar sem þessar að vísu nokkurt vandamál. Ekki vegna þess að þær séu illa gerðar eða ástæða til þess að efast sérstaklega um niðurstöðurnar, heldur fremur vegna þess að þar ræðir um einstaklega flókin, jafnvel óljós viðhorf, sem erfitt er að sannmæla með öruggum hætti. Niðurstöður þeirra fyrir einstaka miðla endurspeglast þannig t.d. sjaldnast í viðhorfi og trausti til fjölmiðla almennt og yfirleitt, en einnig má benda á að þegar horft er til mælinga á trausti til smærri miðla getur legið fyrir afdráttarlaus afstaða þorra svarenda, jafnvel þó svo að útbreiðsla þeirra sé með þeim hætti að efa megi að þorri svarenda þekki vel eða nokkuð til þeirra, efnistaka eða áreiðanleika. Á móti má svo auðvitað segja að traust eða vantraust til þeirra — hversu grundvallað sem það svo annars er — kunni endurspeglast í útbreiðslunni, og þá geta menn tekið til við að ræða um hænuna og eggið.

Fyrir jafnútbreiddan miðil og Ríkisútvarpið er það þó varla vandamál, það má heita öruggt að flestir svarenda þekki vel til þess og myndi skoðun sína á þeim viðkynnum, til lengri eða skemmri tíma. Svo stofnunin má mjög vel við una.

***

Aftur á móti má benda á að þessar kannanir voru gerðar um svipað leyti og nýr vinkill kom fram um Spartakusarmálið, sem er Ríkisútvarpinu til háborinnar hneisu og það hefur enn ekki gert upp. Nú er auðvitað mögulegt að svarendum hafi verið ókunnugt um það allt, en hitt má eins vera að það mál hafi einfaldlega engin áhrif haft á afstöðu þeirra. Og það væri verra. Eiginlega afleitt.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is