Tilkynningum vegna gruns um peningaþvætti fjölgar ört og voru um 500 talsins í fyrra. Má áætla að þær varði hátt á annan milljarð króna. Nú er verið að gera breytingar á lögum til að herða baráttuna gegn slíkri brotastarfsemi hérlendis.

Tilkynningum til íslenskra yfirvalda vegna gruns um peningaþvætti fjölgaði mjög mikið árið 2007 frá árinu á undan, og voru tæplega 500 talsins samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Á árinu 2006 bárust peningaþvættisskrifstofu Ríkislögreglustjóra alls 323 tilkynningar frá tilkynningaskyldum aðilum, og er því um tæplega 54% aukningu að ræða á milli ára. Árið 2000 voru tilkynningar 113 talsins, 125 árið eftir og vörðuðu um 850 milljónir króna. Fjöldi tilkynninga hefur vaxið hratt síðan og tala þeirra tvöfaldast á undanförnum fimm árum. Árið 2005 voru tilkynningarnar 283 talsins og vörðuðu samtals fjármuni upp á rúmlega 596 milljónir króna. Flestar tilkynningar það ár, eða 96 talsins, bárust frá Landsbanka Íslands, þá kom Western Union með 66 tilkynningar, Glitnir var með 41 tilkynningu og loks Kaupþing með 39 tilkynningar.

Tilkynningar frá öðrum fyrirtækjum voru mun færri. Viðskiptablaðið hefur ekki upplýsingar um þær fjárhæðir sem um er að ræða síðustu tvö ár, en ef miðað er við upphæðina 2005 má ætla að tilkynningar í fyrra hafi tengst fjármunum upp á að a.m.k. á annan milljarð króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .