Sandalar og léttur sumarfatnaður verða vinsælar útsöluvörur á næstunni, ef svo fer sem horfir. Í fréttabréfi SVÞ er haft eftir forsvarsmönnum verslana að slæmt veðurfar í sumar hafi neikvæð áhrif á sölu ýmissa tegunda sérvöru.

Til dæmis kaupi fólk ekki sumarfatnað og léttan skófatnað nema það sé á leið til útlanda segir í fréttabréfinu.

Einnig er samdráttur í sölu á viðlegubúnaði. Þá er greinilega minni sala á grillkjöti en í hefðbundnu sumarveðri. Þessu fylgir einnig að sala á rauðvíni hjá ÁTVR er minni en gert var ráð fyrir. Landsmenn virðast vera minna á ferðinni þetta sumarið ef marka má heimsóknir ferðamanna í dagvöruverslanir á landsbyggðinni.

Í viðtölum við forsvarsmenn verslana kemur fram að ekki er heildarsamdráttur í verslun heldur öllu frekar í einstökum tegundum. Þannig á léttur útivistarfatnaður undir högg að sækja vegna kuldalegs sumars. Fólk notar einfaldlega regn- og útivistarfatnaðinn frá því í vetur.

Verslunarkeðjur sem reka dagvöruverslanir á landsbyggðinni verða varar við minni straum ferðamanna en undanfarin ár. Veðurfarið virðist þannig einnig hafa áhrif á ferðalög innanlands.

"Það eru gömul sannindi og ný að veðurfar skiptir verslun miklu máli. Bjart veður virðist hafa þau áhrif á neytendur að þeir fara frekar í verslunarleiðangra. Gildir það jafnt að sumri til þegar sólin sýnir sig, svo og þegar fyrsti snjórinn fellur fyrir jólin. Þá aukast viðskiptin í verslun," segir í fréttabréfinu.