Ungir sjálfstæðismenn hafna öllum hugmyndum um að leggja sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki.

Í tilkynningu frá Sambandi ungra sjálfstæðismanna (SUS) kemur fram að fyrirhugaður skattur sé sérstaklega ósanngjarn því hann sé lagður á óháð afkomu. Því geti verið um að ræða skattlagningu á tap. Hann muni því bitna harðast á minni fjármálafyrirtækjum og þeim sem eru í uppbyggingu.

„Vinstristjórnin virðist halda að atvinnulíf og heimili séu tvö aðskilin fyrirbæri sem engin áhrif hafi hvort á annað,“ segir í ályktun SUS.

„Sérstakur skattur á fjármálastarfsemi mun að sjálfsögðu skila sér í því að bankar munu bjóða viðskiptavinum sínum verri kjör og það mun hamla greininni í frekari uppbyggingu og fjölgun starfa. Skatturinn mun því lenda beint á heimilunum, sem vinstristjórnin hefur heitið að slá skjaldborg um.“

Þá segja ungir sjálfstæðismenn að einnig beri að líta til þess að eðli fjármálastarfsemi sé þannig að mikil samkeppni er á milli landa. Ef stjórnvöld ákveði að leggja sérstakan skatt á íslensk fjármálafyrirtæki þýði það að þau verði verr í stakk búin til að taka þátt í alþjóðlegri samkeppni á þessu sviði.

„Það mun leiða til þess að störf færast úr landi og þannig tapast spennandi tækifæri fyrir ungt fólk,“ segir í ályktun SUS.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.
© BIG (VB MYND/BIG)

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, kynnti fyrr í haust áætlun um sérstakan skatt á banka sem gengur undir nafninu fjársýsluskattur.