Svana Helen Björnsdóttir, verkfræðingur, sækist eftir fyrsta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar í vor, en þetta kemur fram í tilkynningu.

Hún er verkfræðingur að mennt og stofnaði og rak hugbúnaðar- og verkfræðifyrirtækið STIKA í þrjá áratugi. Síðustu tveimur árum hefur hún varið í að ljúka doktorsprófi. Hún hefur gegnt formennsku í Verkfræðingafélagi Íslands, setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja og stofnana og meðal annars gegnt stöðu formanns Samtaka iðnaðarins. Síðastliðin 14 ár hefur Svana verið varaformaður sóknarnefndar Seltjarnarneskirkju.

Svana Helen var formaður foreldrafélags leikskólans á Seltjarnarnesi og formaður foreldraráðs grunnskólans til margra ára. Hún hefur verið virk í íþróttastarfi Gróttu og hefur búið á Nesinu í rúm þrjátíu ár. Svana er gift Sæmundi E. Þorsteinssyni verkfræðingi og lektor við Háskóla Íslands og eiga þau þrjá syni saman.

Meðal helstu áherslumála hennar er að bæta þjónustu og íbúagæði, tryggja fjárhag bæjarins með aðhaldi og hagkvæmni, gæta að hagsmunum yngri kynslóðarinnar í skóla- og frístundastarfi, bæta lífskjör og aðbúnað aldraðra og huga að ásýnd bæjarins meðal annars með þrifum og fegrun gatna og opinna svæða. „Seltjarnarnes er einstakt bæjarfélag með mikla framtíðarmöguleika ef vel verður á málum haldið,“ segir Svana Helen í tilkynningu.

Fjögur hafa boðið sig fram í oddvitasæti Sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Auk Svönu gefa þau Magnús Örn Guðmundsson, Ragnhildur Jónsdóttir og Þór Sigurgeirsson kost á sér í fyrsta sætið. Prófkjörið fer fram þann 26. febrúar næstkomandi og kemur þá í ljós hver þeirra hreppir oddvitasæti Sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor.