Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi VG og stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur, vill að hlutur OR í Hitaveitu Suðurnesja verði ekki seldur nema tryggt sé að hann verði áfram í eigu almennings.

Stjórn OR ákvað á fundi sínum fyrir helgi að selja um 16,55 hlut OR í Hitaveitu Suðurnesja. Svandís greiddi atkvæði gegn sölunni. Hún lagði fram bókun á fundinum sem er svohljóðandi:

„Ljóst er ef marka má bókun stjórnar frá fundinum 2. júlí 2007 þá voru kaupin í Hitaveitu Suðurnesja á sínum tíma samþykkt með það að leiðarljósi að halda veitunni í eigu almennings eins og nokkurs er kostur. Hér er lagt til að undirbúa sölu á hlutnum án þess að nokkuð fari fyrir áherslum um samfélagslega hagsmuni og vilja til að halda auðlindum í eigu almennings."   Fulltrúi Vinstri grænna getur ekki staðið að samþykkt slíkrar tillögu.