Sævar Helgason, framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa telur brýnasta verkefnið um þessar mundir vera að skapa trúverðugleika á endurreisninni á Íslandi. Afar mikilvægt sé að bæði innlendir og erlendir aðilar hafi trú á því að það starf sem hér er verið að vinna muni skila árangri og muni leiða okkur á rétta braut á ný.

Þetta kemur fram í viðtali við Sævar sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag..

Sævar segir að þannig þurfi m.a. að gera bankana starfhæfa á ný, þeir séu það ekki í dag þótt slíku sé haldið fram. Þá segir Sævar að ekki megi gleyma því að Íslendingar eigi undir höndum talsvert fjármagn, mun meira en útlendingar eiga hér á landi.

„Ef Íslendingar hafa ekki trú á starfinu sem er í gangi hérna, þá leita þeir leiða til að fjárfesta annars staðar,“ segir Sævar og bætir við að umhverfi til fjárfestinga þurfi að vera hagstætt hér á landi.

„Þess vegna líst mér t.a.m. mjög illa á allar hugmyndir um hækkun fjármagnstekjuskatts. Það dregur úr vilja manna til að fjárfesta og stofna fyrirtæki. Það er í sjálfu sér eðlilegt, ef þú fjárfestir í fyrirtæki og þarft síðan að greiða stóran hluta af hagnaðinum til ríkisins er ekki víst að það sé áhættunnar virði. Ríkið þarf að skapa aðstæður sem eru hvetjandi fyrir fjárfesta til að stofna eða að koma að fyrirtækjum.“

Leiðrétting:

Í Viðskiptablaðinu í dag birtist röng millifyrirsögn í viðtali við Sævar þar sem orðið hátekjuskattur kemur í stað hækkun fjármagnstekjuskatts. Þarna er um að ræða mistök blaðamanns og er Sævar beðinn velvirðingar á því.