Í nýútgefnu skjali svarar Seðlabanki Íslands algengustu spurningum almennings varðandi fyrirhugað gjaldeyrisútboð Seðlabankans og skilgreiningu aflandskrónueignanna. Spurningum á borð við „til hvers eru lögin,” „hvernig eru fjárfestingar- og úttektarheimildir rýmkaðar,” og „er ekki verið að brjóta á rétti aflandskrónueigenda?”

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í síðustu viku var frumvarp um aflandskrónueignir kynnt fyrir Alþingi og svo samþykkt á sunnudaginn siðastliðinn. Í frumvarpinu eru aflandskrónueignir skilgreindar kyrfilegar en áður og gjaldeyrisútboð Seðlabankans kynnt til sögunnar. Með frumvarpinu segir fjármálaráðherra að stigið sé stórt skref í átt til losunar hafta.

Eins og segir í svaraskjali Seðlabankans er megintilgangur laganna sá að aðgreina aflandskrónueignir tryggilega svo að mögulegt verði að stíga næstu skref í losun fjármagnshafta og koma á frjálsum milliríkjaviðskiptum með krónur á ný. Mikilvægt sé þá að þetta verði gert án þess að fjármálastöðugleika eða stöðugleika í gengis- og peningamálum sé ógnað.

Lesa má skjal Seðlabankans með því að smella hér.