Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, svarar ekki spurningum Steingríms J. Sigfússonar, þingmanns VG, um uppsagnir í ráðuneytum.

Ástæðan er sú að fyrirspurnin lýtur að málefnum starfsfólks hvers ráðuneytis Stjórnarráðsins. Í 57. grein laga um þingsköp Alþingis er hins vegar kveðið á um að ráðherra svari fyrirspurnum um þau mál sem hann ber ábyrgð á.

„Ábyrgð á starfsmannahaldi innan Stjórnarráðs Íslands hvílir hins vegar sjálfstætt hjá hverju ráðuneyti og ráðherra fyrir sig. Í samræmi við það og ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 57. gr. þingskapa ber að beina fyrirspurnum er varða starfsráðningar í einstökum ráðuneytum til þess ráðherra sem fer með viðkomandi ráðuneyti. Sé óskað upplýsinga um starfsráðningar í öllum ráðuneytum ber samkvæmt framansögðu að beina sérstakri fyrirspurn þess efnis til hvers og eins ráðherra,“ segir í svari Bjarna.

Þá segir að berist fjármála- og efnahagsráðherra fyrirspurn sama efnis vegna starfsfólks fjármála- og efnahagsráðuneytis verði henni að sjálfsögðu svarað efnislega enda sé hún að öðru leyti í samræmi við form- og efnisskilyrði þingskapa.