Sveinn Waage hefur verið ráðinn markaðsstjóri hjá Meniga og mun bera ábyrgð á markaðsstarfi Meniga á Íslandi. Sveinn var áður hjá Ölgerðinni í rúm fjögur sem vörumerkjastjóri og einnig sem kennari í Bjórskólanum.

„Sveinn kemur til okkar úr hröðu og hörðu samkeppnisumhverfi þar sem hann hefur stýrt markaðsstarfi á fjölmörgum vörumerkjum með góðum árangri. Hann mun koma með nýja vídd og aðra sýn inn í Meniga sem kröftugur markaðsmaður með góða reynslu. Sveinn mun vinna náið með Kristjáni Frey Kristjánssyni, sem nýlega var ráðinn til að stýra starfsemi Meniga.is og innleiða nýjar lausnir fyrir notendur Meniga á Íslandi. Það er fengur að fá Svein til liðs við okkur og það verður spennandi að vinna með honum í markaðssetningu nýrra verkefna á Íslandi. Svo skemmir ekki að hann er nokkuð skemmtilegur á góðum degi. Við erum í dag komin með öflugt teymi til að leiða áfram Meniga á Íslandi,“ segir Viggó Ásgeirsson, einn stofnenda Meniga, í tilkynningu.

Sveinn er hæstánægður að ganga til liðs við Meniga. „Já, ég er mjög spenntur yfir þessu. Meniga er fyrirtæki sem maður hefur dáðst að fyrir frábæran árangur og skjótan vöxt á mettíma. Maður er að ganga til liðs við magnaðan hóp af hæfileikaríku fólki sem hafa byggt þetta fyrirtæki upp. Ég verð að segja að ég er hreinlega upp með mér að fá að taka þátt í þessu ævintýri.  Það er draumur allra markaðsmanna að fá að taka virkan þátt í þróun á vörunni sem þeir munu markaðssetja og að fá að upplifa það nú eru sönn forréttindi. Framtíðin er sannarlega spennandi hjá Meniga,“ segir hann.

Sveinn Waage hóf störf hjá Ölgerðinni haustið 2009 sem vörumerkjastjóri og tók að sér kennslu í Bjórskólanum frá 2010. Áður vann hann sem blaðamaður og ritstjóri hjá Birtingi í þrjú ár og þar áður hjá markaðsdeild Íslenska Útvarpsfélagsins, seinna 365 í fjögur ár.

Sveinn lauk námi frá Háskólanum í Reykjavík í Markaðsamskiptum og almannatengslum, þar sem hann var verðlaunaður fyrir sitt lokaverkefni. Einnig lauk hann Prisma-námi, samstarfsverkefni Viðskiptaháskólans á Bifröst og Listaháskóla Íslands. Sveinn er virkur í félagsstörfum, stjórnarmaður og fararstjóri hjá stuðningsmannaklúbbi og hefur um árabil stýrt veislum og glatt fólk á mannfögnuðum við ýmis tækifæri.