Ekki liggur fyrir hver endanleg skattprósenta bankaskattsins verður. Fjárlaganefnd hefur ekki enn haft færi á að ræða breytingar á bankaskattinum. Fjárlagafrumvarpið og tengd frumvörp fara til fjárlaganefndar í dag fyrir þriðju umræðu. Svo er vonast til þess að hægt verði að klára þingstörf fyrir jól á morgun.

Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, gerði athugasemdir við þetta í fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun. Hann spurði Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra út í málið. „Það er óheppilegt að þessi breyting sem boðuð var um síðustu mánaðamót skuli ekki vera komin til nefndar,“ sagði Bjarni Benediktsson í svari sínu. Bjarni sagði að gert væri ráð fyrir því að tekjur ríkisins myndu vaxa um hér um bil 22 milljarða króna. Þetta yrði kynnt í fjárlaganefnd í dag. Bjarni sagði líka að sveitarfélög myndu fá hlutdeild í bankaskattinum. Það er vegna hugsanlegs tekjutaps sem þau verða fyrir vegna fyrirhugaðra skattaívilnana tengdum séreignarsparnaði

Guðmundur Steingrímsson gerði líka athugasemd við það að í tekjuöflunarfrumvarpi væri gert ráð fyrir því að bankaskatturinn yrði einungis til tveggja ára. Þá yrði búið að slíta þrotabúum föllnu bankanna. Hann spurði hvað tæki við. Bjarni sagði að við slit þrotabúanna yrði til annar skattstofn sem jafngilti bankaskattinum. Hann nefndi til dæmis útgönguskatt. Það felur í sér að fjármagn sem er flutt úr landi er skattlagt.