Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur skorað á ríkisstjórnina að ganga til samningaviðræðna við sig, svo hægt sé að standa skil á lögbundinni þjónustu. Halldór Halldórsson, formaður stjórnar sambandins segir brýnt að ná lausn mála sem skjótast.

„Aukaframlag í Jöfnunarsjóð hefur undanfarin ár gert sveitarfélögum með þyngsta reksturinn kleift að standa undir nauðsynlegri þjónustu. Með aukaframlaginu hefur verið komið til móts við það sjónarmið að staða sveitarfélaganna í landinu er mjög misjöfn,” segir Halldór.

Sveitarfélögin vilja aukaframlag upp á 1,4 milljarða í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, framlengingu á lögum um stuðning við fráveituframkvæmdir sveitarfélaga, að varasjóði húsnæðismála verði tryggðir fjármunir og að Jöfnunarsjóði verði tryggt fjármagn til að styðja við sameiningar sveitafélaga.