Reykjanesbær, sem meirihlutaeigandi í HS veitum hf., vill kanna áhuga á stækkun fyrirtækisins og endurkomu fleiri sveitarfélaga í það. Hefur sveitarfélögum sem nota þjónustu HS veitna hf. verið sent bréf þar sem þeim er boðið að kaupa hlut í fyrirtækinu í hlutfalli við þjónustuumfang þeirra.

Frá þessu er greint á vef Víkurfrétta en við sölu á hlutum sínum í Hitaveitu Suðurnesja hf. árið 2007, áður en til uppskiptingar fyrirtækisins kom samkvæmt lögum, afsöluðu mörg sveitarfélög þar með eign sinni á veitukerfum innan bæjarmarka. Reykjanesbær hélt eign sinni og hafði aðstöðu til að semja um að eignast meirihluta í HS veitum hf. við uppskiptin.

HS veitur hf. sjá um dreifingu heits og kalds vatns og rafmagns á þjónustusvæði sem nær yfir öll Suðurnes, Hafnarfjörð, hluta Garðabæjar, Álftanes, Árborg og allt til Vestmannaeyja. HS veitur hf. eiga einnig kaldavatnslindirnar sem heimili og fyrirtæki á Suðurnesjum nýta.

Sjá nánar á vef Víkurfrétta.