Í tilefni af heimsókn sænsku konungshjónanna og sænsku krónprinsessunnar til Íslands, stendur sænska sendiráðið, í samvinnu við sænska útflutningsráðið og sænsk-íslenska verslunarráðið, fyrir viðskiptaráðstefna á Nordica hotel miðvikudaginn 8. september undir yfirskriftinni: "Sweden and Iceland ? in a world of business opportunities".

Á ráðstefnunni verður fjallað um útrás íslenskra fyrirtækja til Svíþjóðar, en flest íslensk fyrirtæki hafa fundið sér vettvang í Svíþjóð fremur en í hinum Norðurlöndunum. Fjallað verður um þær móttökur sem íslensku fyrirtækin hafa fengið í Svíþjóð og hvaða væntingar Svíar hafa til erlendra fyrirtækja sem fjárfesta í sænsku efnahagslífi. Íslendingar hafa haslað sér völl í banka- og fjárfestingastarfsemi, smásöluverslun og í nokkrum greinum innan hátækni og verður komið inn á þessa þróun samskipta á milli landanna og hvernig áframhald verður á henni.

Aðalframsögumaður ráðstefnunnar verður Michael Treschow, stjórnarformaður Ericsson og Electrolux og jafnframt stjórnarformaður Svenskt näringsliv, eða "Confederation of Swedish Enterprise". Aðrir sænskir framsögumenn á ráðstefnunni eru Olof Rydh, forstjóri, EKN (Exportkreditnämnden), Åke Hellquist, framkvæmdastjóri DBH Stockholm AB (Debenhams) og Agneta Dreber, framkvæmdastjóri samtaka sænskra matvælaiðnaðarfyrirtækja, eða "Confederation of the Swedish Food and Drink industries". Íslenskir framsögumenn á ráðstefnunni eru Sigurður Einarsson, stjórnarformaður KB Banka og Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar hf.

Karl XVI Gústaf Svíakonungur og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands munu sitja ráðstefnuna að hluta til.

Ráðstefnan, sem haldin er í samvinnu við sænska útflutningsráðið og sænsk-íslenska verslunarráðið, fer fram á Nordica hotel, Suðurlandsbraut 2, hefst kl. 8:30 (skráning frá kl. 8:00) og stendur til kl. 12:15. Boðið verður upp á léttan hádegisverð að henni lokinni.