Svínabændur munu alfarið hætta geldingum grísa með þeim hætti sem hún hefur verið framkvæmd. Leitað verður allra leiða í samstarfi við dýralækna, sláturleyfishafa og Matvælastofnun, segir í tilkynningu sem Svínaræktarfélag Íslands og Landssamtök sláturleyfishafa sendu frá sér í dag. Þeir kostir sem helst koma til greina eru að mati svínabænda og sláturleyfishafa eru eftirfarandi:

  • Gelding framkvæmd með deyfingu.
  • Gelding framkvæmd með svæfingu.
  • Til lengri tíma litið hlýtur besta leiðin út frá velferð dýranna vera að hætta geldingum alfarið. Í því sambandi verður fylgst mjög náið með því hvernig þessi mál þróast erlendis.

Í tilkynningu segir að bólusetning gegn galtarlykt sé að svo komnu máli ekki talinn vera æskilegur kostur hér á landi.  Bólusetning gegn galtarlykt sé aðferð sem fyrst hafi verið tekin upp í Ástralíu árið 1998. Sú aðferð hafi ekki náð útbreiðslu og fyrir því séu ýmsar ástæður.

„Við innleiðingu nýrra laga er mikilvægt að stjórnvöld geri hlutaðeigandi kleift að uppfylla lögin. Stærsta áskorunin sem svínarækt á heimsvísu stendur frammi fyrir er að hætta geldingu grísa með þeim hætti sem hún er almennt framkvæmd í heiminum, þ.m.t. hér á landi. Í því samhengi má benda á að innan Evrópusambandsins verða geldingar grísa bannaðar frá og með 1. Janúar 2018. Til fjölda ára hefur verið unnið að því að þróa leiðir til að finna lausn á þessu. Með nýjum lögum um velferð dýra sem tóku gildi um síðustu áramót skipaði Ísland sér fremst á meðal ríkja sem hafa velferð og aðbúnað dýra að leiðarljósi. Því ber að fagna enda er svínabændum og sláturleyfishöfum mikið í mun að dýravelferð sé höfð í fyrirrúmi,“ segir í tilkynningunni

Þá er skorað á íslensk stjórnvöld að tryggja að innfluttar afurðir uppfylli sambærilegar kröfur og gerðar eru hér á landi. „Íslenskur svínabúskapur hefur þá sérstöðu að lyfjanotkun er með því minnsta sem þekkist. Þá er ljóst að þegar ný lög um velferð dýra hafa verið innleidd að fullu munu íslenskir neytendur geta treyst því að þær íslensku svínaafurðir sem rata á þeirra disk urðu til með þeim hætti sem best gerist. Það er eðlilegt að gera sömu kröfu til innfluttra svínaafurða,“ segir í tilkynningunni.