„Þetta er ekki fullt tilboð, í þessu er fullt af eyðum. En þegar horft er á stærðargráðurnar í þessu er þetta svipað og Samtök atvinnulífsins hafa boðið öðrum. Við tökum bara við þessu núna og látum þá fá eitthvað á móti,“ segir Páll Halldórsson, formaður Bandalags háskólamanna, í samtali við Morgunblaðið um nýtt tilboð samninganefndar ríkisins í kjaraviðræðum.

Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, segir í samtali við Morgunblaðið að tilboðið sé sambærilegt því sem rætt hefur verið um við aðra. Tillögurnar snúi að breytingum á launalið, vinnufyrirkomulagi, veikindarétti og endurmenntun og símenntun.

„Þó að við eigum talsvert langt í land með að klára þetta þá er hægt að vinna með þetta og við sjáum hvað við komumst áfram,“ segir Páll. Boðað hefur verið til fundar milli aðila aftur í dag.