Í fyrsta skiptið í sumar mun skemmtiferðaskip stunda áætlunarsiglingar í kringum Ísland.  Ferðaskrifstofan Iceland ProTravel samdi í fyrra um leigu á skipinu Ocean Diamond yfir sumartímann en á veturna er skipið í skemmtisiglingum við Suðurskautið og þá á vegum annarrar ferðaskrifstofu. Iceland ProTravel mun vera með skipið á leigu næstu þrjú sumur.

Ocean Diamond hefur siglingar hér við land þann 3. júní og mun í heildina fara sjö ferðir í kringum landið. Hver ferð tekur tíu daga og standa þessar siglingar því yfir til 6. ágúst. Eftir það mun skipið fara í þrjár ferðir til Grænlands.

Sigríður Eysteinsdóttir, skrifstofustjóri hjá Iceland ProTravel , segir viðtökurnar hafa verið góðar og vel hafi gengið að bóka. Nánast sé uppselt í eina af þessum ferðum.

„Þetta lítur mjög vel út," segir Sigríður.  „Það er greinilegt að þetta hefur vantað á markaðinn og því má segja að þetta sé góð viðbót við ferðageirann. Það eru aðallega Þjóðverjar, Svisslendingar og Bandaríkjamenn sem hafa pantað siglingu hjá okkur en einnig hefur þónokkuð af Norðmönnum og Bretum pantað hjá okkur."

frá 195 þúsund upp í 1,9 milljónir

Skipið tekur 224 farþega og í því eru 109 káetur. Þær eru misstórar eða frá 19 fermetrum upp í 37 fermetra svítur. Dýrustu svíturnar eru með svölum og kostar 10 daga sigling í kringum landi á háannatíma, sem er frá 30. júní til 28. júlí, um 13.500 dollara eða tæpar 1,9 milljónir króna. Á ódýrasta tíma kostar sama svítan 11.600 dollara eða 1,6 milljónir króna.

Hægt er fara í sömu siglingu á mun ódýrari máta. Ódýrasta káetan á besta tíma kostar tæplega 2.300 dollara eða 320 þúsund krónur. Á ódýrasta tímanum kostar hún um 1.700 dollara eða 235 þúsund krónur. Þá er hægt velja um 11 mismunandi káetur og verðin mismunandi eftir því.

Einnig má geta þess að hafi fólk pantað fyrir 30. nóvember fékk það ríflega afslátt. Þá kostaði dýrasta ferðin 10.800 dollara (1,5 milljónir króna) en sú ódýrasta tæpa 1.400 (195 þúsund krónur). Flug til og frá landinu er ekki innifalið í verðinu en nánast allt annað er innifalið eins og til dæmis matur, drykkir (ekki áfengi), stuttar skoðunarferðir og fleira.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .