*

laugardagur, 29. janúar 2022
Innlent 27. maí 2021 16:05

SVN endar daginn 8,6% yfir útboðsgenginu

Velta með hlutabréf Síldarvinnslunnar nam 1,1 milljarði króna á fyrsta degi viðskipta.

Ritstjórn
Frá Nasdaq skjánum á Times Square í New York fyrr í dag.
Aðsend mynd

Gengi Síldarvinnslunnar (SVN) endaði í 65,2 krónum á hlut í 1,1 milljarðs króna veltu á fyrsta dag viðskipta með hlutabréf félagsins á aðalmarkaði Nasdaq. Endanlegt útboðsgengi í útboði SVN var 60 krónur á hlut í tilboðsbók B (tilboð yfir 20 milljónum króna) og 58 krónur í tilboðsbók A (undir 20 milljónum). Hlutabréfaverð Síldarvinnslunnar er því um 8,6%-12,4% yfir útboðsgenginu.

Sjá einnig: SVN hringt inn í skipinu Berki

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,3% í 6,9 milljarða króna veltu en fjórtán af nítján félögum lækkuðu í viðskiptum dagsins. Icelandair lækkaði um 3%, mest allra félaga, en gengi flugfélagsins stendur nú í 1,60 krónum á hlut. Brim lækkaði næst mest eða um 1,8% en sjávarútvegsfélagið hefur engu að síður hækkað um 14% frá 11. maí síðastliðnum.

Mesta veltan var með hlutabréf Arion banka sem lækkuðu um 0,7% í 2,2 milljarða króna viðskiptum. Gengi Arion hefur engu að síður hækkað um 44% í ár, mest allra félaga Kauphallarinnar.