Fjarskiptafélagið Sýn var hástökkvarinn í Kauphöllinni í dag en hlutabréfaverð félagsins hækkaði um 3,9% í nærri 200 milljóna veltu í dag. Gengi Sýnar stendur nú í 48,6 krónum eftir að hafa hækkað um 21% á einum mánuði og hefur nú ekki verið hærra síðan í nóvember 2018.

Marel hækkaði næst mest allra félaga, eða um 2,7% í 670 milljóna viðskiptum. Hlutabréfagengi félagsins hefur nú hækkað um 4,4% frá lokun markaða á föstudaginn síðasta og stendur í 848 krónum á hlut.

Á hinum enda rófsins var Icelandair en gengi flugfélagsins lækkaði um 4,1% í 251 milljón króna veltu og stendur nú í 1,75 krónum á hlut. Play lækkaði sömuleiðis um 2,7% á First North markaðnum. Hlutabréfaverð félaganna tveggja hafa þrátt fyrir lækkun dagsins hækkað um 18%-20% á einum mánuði.