Alríkisviðskiptastofnun Bandaríkjanna (FTC) hefur kært AT&T, næststærsta farsímafyrirtæki Bandaríkjanna, fyrir að hafa blekkt milljónir viðskiptavina sinna.

Að sögn Alríkisviðskiptastofnunarinnar seldi AT&T viðskiptavinum sínum farsímaáskriftir þar sem netnotkun átti að vera ótakmörkuð. Fyrirtækið hafi hins vegar hægt á nettengingum viðskiptavinanna þegar þeir notuðu netið of mikið. Stofnunin segir að þetta hafi fyrirtækið stundað frá árinu 2011 og að hægt hafi verið á netinu hjá viðskiptavinum í að minnsta kosti 25 milljón skipti. Í sumum tilvikum hafi nethraðinn verið minnkaður um allt að 90 prósent.

"AT&T lofaði viðskiptavinum sínum ótakmörkuðu gagnamagni, og í mörgum tilfellum stóð fyrirtækið ekki við það loforð," er haft eftir Edith Ramirez, yfirmanni Alríkisviðskiptastofnunarinnar, í yfirlýsingu . "Málið er einfalt: ótakmarkað þýðir ótakmarkað."

Alríkisviðskiptastofnunin mun krefjast skaðabóta sem gætu svo verið borgaðar út til þeirra viðskiptavina sem urðu fyrir þessum aðgerðum.