*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 9. júní 2021 09:07

Taconic kom að fjármögnun Strengs

Stærstur hluti fjármögnunar á skuldsettri yfirtöku Strengs kom frá Arion banka og Íslandsbanka.

Ritstjórn
Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Skeljungs, fer fyrir fjárfestingafélaginu Streng.
Eyþór Árnason

Bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital, sem var fyrir stuttu stærsti hluthafi Arion banka, kom að fjármögnun á skuldsettri yfirtöku félagsins Strengs á Skeljungi, samkvæmt heimildum Markaðarins. Stærstur hluti fjármögnunar Strengs kom frá Arion banka og Íslandsbanka sem voru umsjónaraðilar með yfirtökunni. Auk þeirra komu Kvika og TM einnig að að fjármögnuninni.

Fjárfestingafélagið Strengur, sem átti þá um 36% hlut, setti fram yfirtökutilboð í alla hluti Skeljungs í nóvember síðastliðnum en einungis eigendur 2,56% hlutafjár tóku tilboðinu. Strengur bætti áfram við sig hlutum með kaupum á markaði, á talsvert hærra gengi en í yfirtökutilboðinu, og eignaðist meirihluta hlutafjár Skeljungs í janúar síðastliðnum. Strengur er nú með 50,06% hlut í Skeljungi.

Þau þrjú félög sem standa að baki Strengs eru 365 hf., RES 9 og Loran. 365 er í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, eiginkonu Jóns Ásgeirs. RES 9 er í eigu RES II ehf., sem er í eigu hjónanna Sigurðar Bollasonar og Nönnu Bjarkar Ásgrímsdóttir, og No. 9 Investments Limited.

Í frétt Markaðarins eru viðskiptin við yfirtökuna sögð hafa verið einstaklega flókin í framkvæmd af þeim sem þekkja til. Þau voru fjármögnuð með veðlánum frá bönkum, víkjandi lánum, brúarlánum auk eiginfjárframlags.

Í greinargerð samhliða yfirtökutilboðinu í lok síðasta árs boðaði Strengur miklar breytingar á rekstri Skeljungs, m.a. sölu eigna, minni efnahagsreikning, fækkun starfsstöðva ásamt fækkun starfsfólks vegna annarra fyrirhugaðra hagfræðingaraðgerða.